Allt

Ilmurinn úr eldhúsinu – Berglind

19/12/2017 • By

Það hafa margir sent okkur fyrirspurnir um uppskriftirnar hennar Berglindar hjá Gulur, Rauður, Grænn og Salt en það má sjá hana framreiða dýrindis rétti í þáttunum Ilmurinn úr eldhúsinu sem búið er að sýna í Sjónvarpi Símans.

Forréttur – Humarvefja í hvítlaukssmjöri

Fransbrauð
Humar, skelflettur
Smjör
Hvítlaukur
Steinselja
Sítrónupipar

Bræðið smjörið, pressið hvítlaukinn og blandið saman ásamt steinseljunni. Skerið skorpuna af brauðinu og fletjið það út með kökukefli báðum megin. Hreinsið humarinn og leggið hann á brauðið. Kryddið með sítrónupiparnum. Vefjið brauðinu utan um humarinn og veltið rúllunum upp úr hvítlauskssmjörinu. Bakið í ofni við 200°C í 10-15 mín. Berið fram með rucola og hvítlaukssósu.

Aðalréttur – Hægelduð önd með eplafyllingu fyrir sex manns.

3 kg önd
3 epli
2 rauðlaukar
1 poki sveskjur

Sósa

2 gulrætur
1 laukur
3 hvítlauksrif
3 sellerístönglar
1 tsk piparkorn
5 lárviðarlauf
innmatur úr öndinni
salt
pipar
ólífuolía
2 dl rauðvín
1 l vatn
rifsberjahlaup
smá sítrónusafi

Snyrtið öndina og þerrið vel að innan sem utan. Saltið og piprið hana ríflega. Pikkið göt á húðina og innan úr til að fitan fari inn í fuglinn frekar en að leka niður.

Skerið laukinn í fjórðunga og eplin í báta. Steikið lauk í nokkrar mínútur og bætið því næst eplum og sveskjum saman. Steikið í um 5 mínútur. Takið af hellunni og kælið lítillega.

Setjið fyllinguna í öndina og lokið fyrir með kjötpinnum. Stingið öndinni inn í 130°c heitan ofn með undir- og yfirhita (ekki blástur) í 6 klst. Takið úr ofni og látið standa í 15 mínútur áður en þið skerið kjötið niður. Setjið fyllinguna í skál og berið fram með öndinni.

Skerið grænmetið fyrir sósuna niður í bita. Setjið grænmetið í ofnplötu/steikarfat ásamt innmatnum. Saltið og piprið. Hellið rauðvíni yfir allt og dreypið síðan ólífuolíu yfir. Setjið inn á sama tíma og þið byrjið að elda öndina. Hellið vatninu saman við eftir nokkrar klukkustundir.

Þegar öndin er tilbúin, hellið þá sósunni yfir í pott og sigtið í leiðinni. Látið sósuna sjóða í um 30 mínútur eða þar til hún er farin að þykkna. Fjarlægið reglulega fituna sem myndast. Smakkið að lokum til með salti, pipar og bragðbætið með smá sítrónu, rifsberjahlaupi eða sojasósu. Einnig er gott að bæta smá skvettu af rjóma saman við – en það er ekki nauðsyn.

Sætkartöflumús með púðursykurs- og pekanhnetukurli

3-4 sætar kartöflur
100 g sykur
2 egg
1 tsk vanilludropar
70 g smjör
1 dl mjólk
Salt og pipar eftir smekk

Kurlið

100 g pekanhnetur
200 g púðursykur
40 g hveiti
70 g smjör

Afhýðið kartöflurnar, skerið í bita og sjóðið. Stappið því næst kartöflurnar saman við sykur, egg, vanilludropa, smjör og mjólk og saltið og piprið. Setjið í ofnfast mót.

Saxið pekanhneturnar og setjið í pott ásamt púðusykri, hveiti og smjöri. Bræðið saman og hellið síðan yfir kartöflumúsina. Bakið í 170°C heitum ofni í 30 mínútur.

Eftirréttur

Risalamande ostakaka – fyrir 6-8

Karamellubotn

150 gr sykur
50 gr möndur
100 gr haframjöl
50 g möndlumjöl

Fylling

250 g rjómaostur
250 ml sýrður rjómi
250 ml rjómi
3 msk flórsykur
1 vanillustöng
2 msk síróp

Toppur

kirsuberjasósa
hvítt súkkulaði

Stráið sykur á pönnu og bræðið þar til hann er orðinn gylltur á lit.

Saxið möndlur gróflega á meðan. Þegar sykurinn er tilbúinn takið þá af pönnunni og bætið söxuðum möndlum, haframjöli og möndlumjöli út í.

Blandið vel saman á pönnunni. Hellið á bökunarpappír og dreifið vel úr blöndunni. Kælið. Brjótið niður og setjið í eftirréttaglösin.

Gerið því næst fyllinguna. Hrærið rjómaost og sýrðan rjóma saman. Bætið fræjum úr vanillustöng saman við ásamt flórsykri og sírópi og hrærið saman. Hrærið rjóma í annarri skál. Blandið síðan varlega samman við með sleif. Deilið fyllingunni á glösin yfir karamellubotninn.

Hellið að lokum kirsuberjasósu yfir fyllinguna og skreytið með rifnu hvítu

súkkulaði. Geymið í kæli þar til eftirrétturinn er borinn fram.