Allt

Apple kynning – 12. september 2017

12/09/2017 • By

Maður getur verið nokkuð viss um að haustið sé komið. Enski boltinn byrjaður að rúlla og Apple héldu kynningu og kynntu nýjan iPhone til leiks ásamt öðru góðgæti fyrir okkur sem elskum tækni, tæki og dót.

Rennum stuttlega yfir allt það sem var kynnt. Ég er pottþétt að gleyma einhverju en þetta er svona það helsta sem ég skrifaði niður á meðan að Tim Cook, forstjóri Apple og kollegar hans kynntu allt það nýjasta til leiks.

iPhone X

iPhone X (10 í rómverska stafrófinu) er flaggskip Apple. Þeir sögðu sjálfir í kynningunni að þetta tæki væri framtíð snjallsímans. iPhone línan er tíu ára núna í ár og því er þetta tæki númer tíu, níunda tækið er ekki til. Svona eins og Microsoft gerðu með Windows þar sem þeir fóru beint úr útgáfu 8 í 10.

iPhone X er magnað tæki að sjá. Ný hönnun, tækið lítur ekki út eins og iPhone tæki hafa gert hingað til. Með nýjum 5.8 tommu OLED skjá sem þeir kalla Super Retina í stað Retina áður sem styður HDR, tækið er einn skjár að framan að sjá fyrir utan myndvélina. Loksins eru stóru rammarnir sem hafa verið í kringum skjáinn efst og neðst á tækinu horfnir.

Heima takkinn sem hefur verið í iPhone frá upphafi er horfinn sömuleiðis, svipað og menn þekkja úr Android heiminum þar sem heima takkinn hefur horfið og allt er þá leyst á skjánum í stýrikerfinu sjálfu. Apple kynna FaceID í stað TouchID enda fingrafaraskannin horfinn (hann var í heima takkanum). FaceID er einhver svartagaldurs tækni sem virðist vera ótrúlega mögnuð þar sem tugþúsundir punkta á andlitinu eru notaðir til að staðfesta að þetta sé raunverulega þú með hjálp dýptar myndavélar sem og innrauðum geisla og hún virkar þó eigandi símans sé með gleraugu, skegg, nýrakaður og hvaðeina.

Þráðlaus hleðsla er komin í iPhone og notast er við Qi staðalinn sem margir símar hafa notað. Bakhlið símans er úr gleri og þannig er hægt að hafa þráðlausa hleðslu. Það er eiginleiki sem margir hafa beðið eftir.

iPhone X með sínu nýja útliti lítur út fyrir að vera ótrúlega fallegur og magnaður að sjá, með 2 tíma betri rafhlöðuendingu en iPhone 7.

Hvenær iPhone X kemur til Íslands vitum við ekkert um eins og staðan er í dag enda kynningunni ný lokið. Hvað hann mun kosta vitum við ekki heldur en ljóst er að iPhone X verður dýrari en iPhone hefur verið vanalega miðað við hvað Apple segir að hann muni kosta í Bandaríkjunum.

iPhone 8 og 8 Plus

Það var ekki bara iPhone X sem var kynntur til leiks heldur líka venjulegir iPhone ef svo má segja. iPhone X er hetjuframtíðar tækið sem verður nokkuð dýrt á meðan að iPhone 8 og 8 Plus verða venjulegu tækin sem að flestir þekkja.

En hvað er nýtt?

Með því að setja gler á bakið er nú hægt að bjóða uppá þráðlausa hleðslu sem er frábært því það er ótrúlega þægilegt að geta lagt tækið sitt á mottu á borðinu og hann byrjar að hlaða sig fyrir eitthvað kraftaverk.

Betri upplausn á skjá, betri rakavörn ásamt nýjum örgjörva sem kallast A11 Bionic. Báðar myndavélarnar hafa fengið uppfærslu og eru nú 12MP (megapixlar) sem á að skila betri myndum almennt. Eins og áður fær Plus útgáfan aðeins betri myndavél en hitt tækið en iPhone 8 Plus er með nýjum nemum og mun bjóða upp á eitthvað sem Apple kalla Portrait Lighting sem á að skila betri lýsingu í portrett myndum eins og hún hafi hreinlega verið tekin hjá fagaðila sem ber lögverndað starfsheiti í ljósmyndun. Tækið tekur upp 4K myndbönd á 60 römmum á sekúndu og FullHD (1080p) myndbönd á 240 römmum á sekúndu.

Tækið mun líka styðja vel við augmented reality/breyttur raunveruleiki tæknina sem Apple hafði áður kynnt til leiks.

Hvenær iPhone 8 og iPhone 8 Plus koma til Íslands er ekki vitað eins og staðan er akkúrat núna né hvað þeir muni kosta.

AppleTV

Uppfært AppleTV var líka kynnt til leiks, það styður nú 4K/UHD (3840×2160 upplausn sem er UHD en allir segja 4K) ásamt HDR og það báða staðlana sem bítast nú um yfirburði þegar kemur að upptöku HDR. Nýja AppleTV styður sem sagt bæði HDR10 og Dolby Vision. Eins og með 4K/UHD þarf sjónvarpið þitt að styðja HDR svo að þú sjáir muninn.

AppleTV 4K notast við A10X örgjörvann sem er í iPad Pro og þannig er þetta uppfærða tæki tvisvar sinnum öflugra en fyrra AppleTV ásamt því að það er með 3GB af vinnsluminni.

Apple Watch

Nýr dagur, nýtt úr og nú með 4G stuðningi. Úrið kalla þeir Apple Watch Series 3 enda þriðja kynslóð af þessu magnað tæki.

Betri örgjörvi, meiri hraði. Apple Music stuðningur og með 4G í úrinu sjálfu er hægt að gera hluti og skilja símann eftir heima.