Allt

Síminn hvetur hetjur áfram

31/05/2013 • By

mfbmVið Símastarfsfólk erum stolt og ánægt. Við fáum að vera í liði með hetjum. Á morgun laugardaginn 1. júní ýta þau Signý Gunnarsdóttir og Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, Guðmundur Guðnason og Alma María Rögnvaldsdóttir, þriðja styrktarhlaupi sínu úr vör.

Nú er hlaupið tileinkað félaginu Blind börn á Íslandi. Við Símastarfsfólk fáum frábært tækifæri til að láta til okkar taka í þessu árlega styrktarhlaupi sem kallast Meðan fæturnir bera mig.

Fyrir hvern Símastarfsmann sem skráir sig til leiks greiðir Síminn 1.000 króna aukafjárframlag. Og Síminn gerir einnig sitt svo það fé sem safnast renni óskert til styrktarsjóðsins. Hann er bakhjarl þeirra hjóna.

Þau vöktu fyrst athygli þegar þau hlupu í kringum landið árið 2011 til að þakka fyrir lífið og láta gott af sér leiða. Hugmyndina fengu þau eftir að hafa staðið í ströngu. Sonur þeirra Signýjar og Sveins, litli Gunnar Hrafn, greindist með krabbamein og sigraðist á sjúkdómnum.
Litli Gunnar Hrafn er sonarsonur Sjafnar Sóleyjar Sveinsdóttur sem tekur á móti okkur í afgreiðslunni hér hjá Símanum í Ármúla 25 dag hvern.

„Já, ég verð á staðnum á morgun laugardag og ætla að hjálpa til við framkvæmdi hlaupsins. Ég er stolt af þeim og glöð að standa með þeim að þessu,“ segir hún.

„Þegar þau hlupu hringinn á sínum tíma, sem tók um hálfan mánuð, hjálpuðum við foreldrarnir til við að passa barnabörnin og keyrðum á eftir þeim. Þetta var frábær samvinna,“ segir Sjöfn sem segir litla drenginn sinn hressan. „Hann er allur að koma til, er farinn að hjóla og sparka fótbolta.“

Fanney Karlsdóttir er sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Símanum. „Það er hluti af stefnu Símans að við starfsfólkið látum okkur samfélagið varða. Það er því sönn ánægja að geta stutt við bakið á þessu frábæra framtaki og um leið hvatt starfsmenn til þess að hreyfa sig og hafa áhrif á samfélagið okkar.“

Foreldrar blindra barna geta sótt um styrki til tækjakaupa fyrir börnin sín í styrktarsjóðinn. Til að mynda til tölvukaupa. Hlaupið í ár er tileinkað stúlkunni Leu Karen Friðbjörnsdóttur. Hún hefur verið blind frá nokkurra mánaða aldri.
Og hvenær er hlaupið? Klukkan 12. Hvaðan? Mæting er í Nauthólsvík. Hver er hlaupaleiðin? Um Öskjuhlíðina. Skráning? Hér.

En ef við erum upptekin á morgun, laugardag? Hægt er að styrkja málefnið með því að millifæra á reikning félagsins, 546-14-402424, kt. 650512-0140.

Einnig er hægt að hringja í eitt af eftirfarandi símanúmerum og styrkurinn færist þá á það símanúmer sem hringt er úr.
• 901-5001 (1000 krónur)
• 901-5003 (3000 krónur)
• 901-5005 (5000 krónur)