Allt

Er stolinn sími tapaður?

10/05/2013 • By

find-my-iphone-los-100004792-largeÞað er ekki erfitt að skilja að fólk hafi meiri áhyggjur af símtækjunum í höndum sínum og sinna nú en áður, því snjallsímarnir – sem flestir kjósa að kaupa í dag – kosta tugi þúsunda og allt á annað hundrað þúsund krónur.

Flest okkar sækja því ekki svo auðveldlega nýtt þegar það gamla týnist eða hverfur í hendurnar á öðrum. Þegar þeim er stolið eru þó bæði ráð og leiðir: Kæra stuldinn til lögreglu og biðja símfyrirtækin að leita að símanum á kerfi sínu gegn vægu gjaldi.

Hvert símtæki hefur sína kennitölu, imei-númer, sem kerfin lesa í takt við símanúmerin sem notuð eru í símanum. Sé nýtt númer sett í símtækið geta símfyrirtækin séð hvaða. Sjáist síminn í notkun eftir að tilkynnt hefur verið um stuld látum við hjá Símanum lögregluna vita. Það er þá í hennar höndum að bregðast við.

En aðrar leiðir eru líka færar, því allir helstu símtækjaframleiðendur bjóða forrit sem geta læst símtækjunum, sent í þá skilaboð, þurrkað af þeim persónuleg gögn, staðsett þá og látið væla! Jafnvel er hægt að taka mynd af þeim sem notar símann, þótt hafa megi í huga að slíkt gæti stangast á við persónuverndarlög. Þessar leiðir virka séu símtækin í notkun. Þá skiptir ekki máli þótt farið sé með símann úr landi.

Þetta eru leiðir sem eigendur snjallsíma geta notfært sér og eru ekki á færi símfyrirtækjanna eða lögreglunnar, séu símarnir t.d. í notkun erlendis. Forritin nefnast Find my iPhone, Samsung Dive svo dæmi séu tekin.

Eigendur símtækjanna þurfa þó að hafa í huga hvernig þeir ætla að bregðast við upplýsingunum sem þeir fá með þessum forritum: Hvað ætlar þú að gera þegar þú veist hvar símtækið þitt er? Ætlar þú að fara og ná í hann? Þetta er tvíeggjað sverð og við ráðleggjum engum að fara í borgaralegar handtökur. Látum lögregluna.

Það sem af er ári hafa 35 leitað til okkar og beðið um aðstoð við að hafa uppi á stolnum símtækjum. Í fyrra voru það rúmlega 170. Lögreglan hefur síðan leitað til okkar og beiðnir hennar eru örugglega jafnmargar ef ekki fleiri, en við tökum þær tölur ekki sérstaklega saman.

Við hjá Símanum þekkjum engin dæmi um að hér á landi hafi hakkarar náð að fela eða breyta imei-númerum símtækjanna og falið þannig slóð þeirra. Hins vegar finnast fáir símar sem tilkynnt er um á kerfunum aftur sem við teljum að bendi til þess að stolin símtæki séu flutt úr landi.

En þótt fjárhagslegt tjón sé af stuldinum þarf eigandinn ekki að glata gögnum sínum. Þeir geta notað ský-þjónusturnar; iCloud, google+ eða dropbox og vistað öll gögn sín samtímis þar og í símtækinu. Gögnin bíða þá eftir eigandanum hvort sem símanum sé stolið eða hann skiptir um símtæki.

Símtækjaframleiðendur bjóða leiðir en það er undir okkur eigendum tækjanna að virkja þær og þekkja. Sérfræðingar Símans geta að sjálfsögðu verið þeim viðskiptavinum sem það vilja innan handar við val á forritum og uppsetningu. Með þeim má koma í veg fyrir að stolinn sími sé að eilífu glataður.