Allt

Snjallsímalausa vikan 2013

18/02/2013 • By

Nokkrir vaskir starfsmenn Símans tóku nýlega djúpt andann, slökktu á snjallsímunum sínum og kvöddu árið 2013 og buðu árið 2006 velkomið. Allt snérist þetta um að leggja snjallsímunum og nota þá síma sem voru í boði áður en snjallsímarnir mættu til leiks,

Þrátt fyrir mikið tal um snjallsíma og öpp eru auðvitað ekki allir með snjallsíma og myndu því þeir sem ekki eiga snjallsíma mögulega finnast þetta vita ómerkileg tilraun. Það er þó þannig að þeir sem lögðu snjallsímunum í þetta skiptið eru allir stórnotendur snjallsíma og hafa verið slíkum tækjum búnir frá því að þessi tæknibylting byrjaði að ryðja sér til rúms. Allt vaskir drengir sem nota símana daginn út og inn og nota þá í hin margvíslegu verk, ekki bara til þess að spjalla og senda smáskilaboð.

Tilgangurinn var ekki vísindalegur en þó var margt skemmtilegt sem kom í ljós. Nokkrar grunnreglur voru settar á blað og svo fóru menn bara að vinna sína vinnu og lifa sínu lífi. Bannað var að nota síma sem höfðu vísun í einhversskonar AppStore og símar máttu ekki hafa möguleikann á að geta tengst þráðlausum staðarnetum. Menn leituðu í skúffum heima fyrir eða biðluðu til tæknimanna innanhúss sem margir hverijr luma á mörgum demöntum úr sögu farsíma á Íslandi.

Elsti síminn sem var brúkaður var Nokia 6150 sem kynntur var til leiks það herrans ár 1998 en Nokia 6310 var næst elsta tækið sem menn grófu upp. Sá sími kom á markað árið 2001. Svo voru nokkrir gamlir SonyEricsson símar notaðir ásamt einum Motorola síma sem hefði verið aldursforsetinn en Magnús Magnússon, starfsmaður markaðsdeildar taldi sig ekki getað notað það tæki þar sem þessi forláta Motorola sími gat ekki sent eða móttekið SMS.

Mesta uppgötvun manna var hvað rafhlaða þessara gömlu tækja entist miklu betur en í fínu flottu snjallsímunum. Svo sem ekkert skrýtið enda virknin talsvert einfaldari og ekki mörg forrit að keyra í bakgrunni sem ávalt eru að sækja og senda upplýsingar yfir netið.

Annað sem menn lentu ítrekað í var að viðmælendur spurðu oft hvort að símtalið hitti illa á og hvort að menn væru í bíl. Hljóðið í þessum gömlu símum fannst manni gott þá en í dag á tímum „noice cancellation” tækni og hugbúnaðar ýmisskonar sem gera allsskonar kraftaverk til að besta hljóð í símtölum gera það að verkum að viðmælendur heyrðu augljósann mun.

Einn þáttakandi tekur notar stundum almenningssamgöngur til að komast til vinnu og hann þurfti að draga fram gamla iPodinn og hlusta þannig á tónlist í strætó frekar en að nota forrit í símanum sem streymdi þá allri heimsins tónlist í tækið.

Mönnum bar almennt saman um að þeir hefðu ekki saknað þess að hafa vinnupóstinn í símanum en almennt voru menn sammála um að gott hefði verið að hafa dagatalið sitt.

Fyrstu tveir dagarnir voru erfiðastir en eftir það voru menn hættir að tuða og kvarta yfir þessu lúxusvandamáli sem snjallsímaleysið var. Þessi tæki auðvelda marga hluti en engin af þeim er yfirstíganlegur sé snjallsíminn tekinn úr jöfnunni, menn aðlaga sig bara að breyttum aðstæðum og halda ótrauðir áfram.

Næsta tilraun liggur fyrir, en meira um hana síðar.
reglurnar