Allt, Hugbúnaður, Netið, Sjónvarp

Miro – sjónvarpsefni í massavís

18/11/2007 • By

miro-logo2.pngMiro er sniðug græja til að halda utan um og horfa á vídeóefni af Internetinu.

Miro samtvinnar BitTorrent tæknina (sem ekki má rugla saman við BitTorrent veitur sem margar hverjar innihalda að mestu ólöglegt efni), RSS og efni af helstu vídeósíðunum, s.s. YouTube og Revver á einum stað.

Miro er forrit sem þarf að sækja og setja upp. Forritið kemur með nokkrum góðum rásum uppsettum, s.s. myndbandarásum frá Wired og NASA. Fyrir þá sem eru kannski ekki alveg svona langt til hægri á nördaskalanum má finna hvorki meira né minna en 2700 rásir í “Miro Guide” sem er skrá yfir efnið sem er í boði. Ýmsir möguleikar eru svo til að stilla áskriftir að mismunandi rásum t.d. af hvaða rásum myndbönd eru sótt sjálfkrafa þegar nýtt efni kemur út og fleira.

Það sem meira er: Miro opnar möguleikann á því að leita að efni á öllum helstu vídeósíðum á vefnum og hlaða efni þaðan niður á tölvuna til að horfa á síðar. Þannig er t.d. hægt að vista YouTube vídeó – nokkuð sem ekki er hægt beint af YouTube vefnum.

Annars skýrir þetta sig að mestu sjálft og að auki inniheldur ein af rásunum sem eru sjálfkrafa uppsettar safn af kennslumyndböndum sem sýna virkni Miro í meiri smáatriðum.

Snyrtilega gert.