Allt, Netið

Slagur kortakerfanna – ekki bara Google

17/10/2007 • By

Það er harður slagur þessa dagana um besta kortakerfið. Við höfum áður minnst hér á Google Earth og Google Maps þekkja margir, en Microsoft er líka að gera stórkostlega hluti í þessum málum um þessar mundir.

Live Search Maps er svar Microsoft við Google Maps. Samanburður á yfirgripi lausnanna hefur ekki verið á einn veg. Google er með betri myndir og kortagögn af sumum svæðum og Microsoft af öðrum eins og gengur. Fyrir Ísland er Google t.d. víðast með nákvæmari loftmyndir, en Microsoft er með talsvert af kortagögnum þar sem Google ekkert eiga. Bestu Íslandskortin á vefnum eru nú samt sem áður á Map24 og á kortavefnum hjá Já.

Microsoft gefur líka út forrit sem heitir Virtual Earth (því miður bara fyrir Windows) sem er um margt svipað Google Earth. Hér hafa Microsoft samt verið að slá Google ítrekað við – sérstaklega þegar kemur að þrívíðum landupplýsingum. Fjöll, hæðir og dalir líta í návígi mun betur út í Virtual Earth, en Google Earth.

Núna er Microsoft um það bil að fara að dreifa nýrri Beta útgáfu af Virtual Earth og þar eru þeir að leika hreint ótrúlegar listir með sambland af þrívíðum módelum og loftmyndum. YouTube vídeóið hér að neðan sýnir þetta í “action” og þeir fá sko fullt af nördastigum fyrir þessa snilld.