Allt

Nýtt í Spotify

01/10/2019 • By

Spotify kynnti í síðustu viku nýja virkni sem ætti að gleðja marga. Nú eru nokkur ár síðan að Spotify kynntu Discover Weekly. Lagalistar sem byggja á þeirri hugsun að sýna þér lög sem þú ættir að hafa gaman að miðað við þína hlustun. Það gera þau hjá Spotify með því að athuga hvað aðrir með sama tónlistarsmekk eru að hlusta á sem þú ert ekki að hlusta á, þannig verður Discover Weekly lagalistinn þinn til. Allt með hjálp tækninnar.

Annar sniðugur listi er Release Radar, en sá lagalisti inniheldur glænýja tónlist með listamönnum sem að þú hlustar oft á ásamt nokkrum vel völdum sem Spotify telur að þú ættir að hafa gaman að líka. Þannig geturðu alltaf heyrt það nýjasta frá þínum uppáhalds tónlistarmanni.

Mannshöndin kemur lítið nálægt þessu öllu en gervigreind Spotify reynir að finna út hvað hentar hverju sinni á hvern lagalista eftir ákveðinni rökfræði.

Það nýjasta, sem þau hjá Spotify kynntu svo í síðustu viku kalla þau On Repeat og Repeat Rewind.

On Repeat er sjálfvirkur lagalisti sem inniheldur öll lögin sem þú hlustar oftast á síðustu 30 daga. Hann uppfærist sjálfkrafa eftir sem tímanum líður og þannig ættu öll lögin sem þú ert alltaf að hlusta á að vera saman á einum stað.

Repeat Rewind er svo sjálfvirkur lagalisti laga sem þú varst alltaf að hlusta á, en ert einhverra hluta vegna að hlusta sjaldnar á núna. Listinn gerir ekki upp á milli tónlistarstíla, landa eða listamanna og þannig safnast saman á einn lista öll lögin sem þú varst alltaf að hlusta á, einu sinni. Og þannig geturðu fundið þau öll aftur og byrjað að hlusta aftur og aftur og aftur.

On Repeat og Repeat Rewind lagalistarnir eru aðgengilegir fyrir bæði þá sem hafa aðgang að Spotify Premium og fríáskriftinni í öppum og vef.

Eitt sem er gott að vita! Þegar maður er að leyfa blessuðum börnunum að hlusta á barnaplötur eða hlusta á þýska danstólist fyrir ræktina er sniðugt að stilla á „private mode„. Þá blandast slíkt ekki við þessa sjálfvirku lista ef þú vilt það ekki.

Kíktu á þessa nýju lista, þeir ættu að gleðja.