Allt

WWDC17 – Apple kynning

06/06/2017 • By

Árlega halda sína WWDC ráðstefnu, sem er hugsuð fyrir og sótt af þeim sem þróa hugbúnað fyrir Apple tæki. Þar kynna Apple næstu útgáfur af sínum stýrikerfum og hvað þær uppfærslur hafa að geyma. Þeir nýta einnig tækifærið og tala um tæki og búnað, sem er skemmtilegast fyrir okkur tækjanördanna. Í gær var einmitt ráðstefnan sett með langri kynningu. Okkar maður var á svæðinu og smellti af nokkrum myndum.

Það sem stendur upp úr mætti helst nefna í engri sérstakri röð :

HomePod

Apple breytti heiminum með iPod MP3 spilaranum á sínum tíma og færði tónlistarhlustun frá útvarpi og að hlustandanum sjálfum. Nú kynna þér til leiks HomePod sem er það sem þeir kalla næstu byltingu og nú er horft á heimilið allt með þessum fallega hátalara.

Hann er með Siri stuðningi og því er hægt að nota raddstýringu (á ensku) til að skipta um lag, skipta um lagalista og spyrja hver spili nú á trommur í þessu lagi og svo mætti lengi telja. Einnig er hægt að fá upp dagatalið, veðrið og helstu skipanir sem Siri gerir í dag rétt eins og Amazon Echo og Google Home gera. Hátalarinn er öflugri þegar kemur að hljómgæðum en þeir tveir fyrrnefndu og fer í raun beint á umráðasvæði Sonos sem hafa verið konungar snjallra hátalara með „multi-room” stuðningi í mörg ár.

Fyrst um sinn verður HomePod bara í sölu í Bandaríkjunum og Bretlandi og kemur formlega út í desember. Hvenær tækið kemur til Íslands er með öllu óvitað.

iOS 11

Næsta útgáfan af stýrikerfinu sem iPhone og iPad nota. Búið er að geri Siri enn öflugri, eitthvað sem margir höfðu beðið eftir þar sem Google Assistant í Android heimi hefur haft nokkuð mikið forskot á Siri síðan hann leit dagsins ljós. Siri er orðin klárari, getur þýtt setningar og hún lærir á notandann og kemur með tillögur um hvað þú sért að fara að gera. Einnig er hægt að skrifa til Siri í stað þess að gjamma til hennar með röddinni.

iOS 11 mun styðja QR kóða beint úr kassanum – voru ekki allir að bíða eftir því?

iMessage er nú komið í skýið og samtöl flæða á milli tækja sem nota sama AppleID. Podcast appið sem margir nota fær nýtt útlit og búið er að laga þann hluta sem snýr að því að finna ný podcöst, sem er vel.

Myndavéla appið fær líka sína uppfærslu en það er nú betra að taka myndir þar sem birta er lítil, hægt er að fikta í Live Photos myndum og nú er 3D Touch virkni komin í appið þannig að auðveldara er að stilla, græja og gera án þess að allur skjárinn fari undir slíkt.

iOS 11 fær líka nýja virkni sem setur símann sjálfkrafa í „Do Not Disturb” stillingu þegar síminn skynjar að eigandi hans sé að keyra. Það er auðvitað bannað og stórhættulegt að nota símann sinn undir stýri og því má fagna þessari viðbót þó einhverjir muni kvarta. Það er hægt að slökkva á þessari virkni þannig að engar áhyggjur þeir sem blóta þessu.

iPad hluti iOS er líka uppfærður, multitasking (að vinna í nokkrum öppum í einu) er mjög bætt ásamt því að Apple kynntu nýja útgáfu af iPad Pro. Nýja útgáfan er með 20% stærri skjá, 12MP myndavél eins og iPhone 7.

iOS fær svo margar aðrar uppfærslur, Apple komust ekki einu sinni yfir það allt í kynningunni.

WatchOS

Apple úrið er auðvitað ekki skilið útundan og nú er Siri líka orðin klárari á úlnliðnum. Hún mun minna á eitt og annað eftir því sem dagatalið þitt og tölvupóstur segir til um ásamt því að Apple kynntu ný þemu með Toy Story persónum. Æfingahlutinn er uppfærður mikið og úrið mun hvetja þig í markmiðasetningu sem er byggð á þínum æfingum og sögu þannig að markmiðin ættu ekki að vera út úr kú miðað við þína getu og tíma sem þú eyðir í hreyfingu.

Apple kynntu einnig uppfærslur á tölvunum sínum. Fartölvurnar stökkva í Kaby Lake, nýjustu kynslóð Intel örgjörva ásamt því að nýr iMac Pro var kynntur til leiks en við látum aðra um að segja betur frá þeim.

Hér má svo sjá stutta útgáfu af því sem þarna fór fram, alls 19 mínutur í stað þeirra 139 mínutna sem þetta nú tók.