Allt

Tinitell

13/12/2016 • By

Þau eru loksins komin Tinitell armböndin, krakkaúrin, krakkasímarnir eða hvað sem ætti nú að kalla svona snilld. Við höfum beðið með eftirvæntingu eftir að almennilegt magn kæmi af þessum tækjum þar sem þau eru frábær! Prófanir okkar með okkar börnum hafa aldeilis slegið í gegn, bæði hjá foreldrum sem og börnunum.

Það er ekki til betri fyrsti sími en Tinitell þar sem ekki er um eiginlegt símtæki í hendi að ræða heldur símtæki á hendi. Tinitell fer á úlnlið eins og úr myndi gera og á Tinitell er engin skjár sem truflar heldur aðeins einn stór takki. Tinitell týnist því ekki eins auðveldlega og símtæki og gleymist ekki eins auðveldlega í tösku eða úlpu.

 

Með takkanum getur barnið hringt og svarað en aðeins þeir geta hringt í Tinitel sem búið er að segja til um í appinu að megi gera það. Að sama skapi getur barnið bara hringt í þá sem búið er að stilla í appinu að það geti hringt í. Ef að dóttir mín ætlar að hringja í mig sem dæmi ýtir hún á stóra takkann, úrið segir „Pabbi” (með rödd dóttur minnar þar sem röddin er tekin upp í appinu þegar tækið er sett upp) og ef hún ætlar að hringja í mig ýtir hún aftur á takkann og Tinitell hringir. Ef hún ætlar að hringja í mömmu sína ýtir hún einn niður og þá segir úrið „Mamma” og hún ýtir á stóra takkann. Ekki flókið!

Foreldrarnir geta svo séð í Tinitell appinu (til fyrir iOS og Android) hvar Tinitell tækið er staðsett og þannig hægt að sjá hvar barnið er staðsett á korti í ævintýrum sínum og leik. Í prófunum mínum með sex ára dóttur minni hefur þörfin til að sjá staðsetningu ekki verið mikil enda dagskrá sex ára barna nokkuð fastsett. Hún er í skólanum og í dægradvöl og því lítill tilgangur að vera að fylgjast með því hvar hún er öllum stundum. En hún hefur verið að prófa að labba sjálf heim af æfingum og þá hefur brothætt pabbahjartað haft gott af því að sjá hvort að hún sé nú ekki örugglega á réttri leið heim þó að gangan sé stutt.

Tinitell getur ekki hlerað samskipti eða hringt hljóðlaust eins og sum tæki heldur hringir tækið alltaf eins og sími á fullum styrk með hljóði og ljós lýsast á úrinu sjálfu. Rafhlaðan endist í ca 2-3 daga en það er eldsnöggt að hlaða sig. Tækið notar GSM og GPS og notar u.þ.b 50-100mb af gagnanotkun á mánuði, því er einfaldast að fá Krakkakort frá Símanum og skella í tækið. Tinitell er í stöðugri þróun og rétt handan við hornið er uppfærsla sem gerir Tinitell sannanlega að úri en þá segir Tinitell hvað klukkan sé. Við erum að vinna í því með Tinitell að tækið geti sagt þetta á íslensku, það gerir möguleikann enn betri fyrir notendur Tinitell á Íslandi.

Kíkið í næstu verslun Símans og skoðið Tinitell eða á Vefverslun Símans. Það er til í nokkrum litum en Tinitell kemur í einni stærð sem passar á nær öll börn.