Allt

iPhone 7 og iPhone 7 Plus

07/09/2016 • By

Sumarið að verða búið og það þýðir aðeins eitt. Það er að koma nýr iPhone.

Apple voru með fyrr í dag kynningu á nýjum iPhone, uppfærðu Apple Watch snjallúri, iOS 10 og ýmsu öðru.

iPhone 7

iPhone 7 og iPhone 7 Plus

Nýju tækin eru keimlík iPhone 6s við fyrstu sýn enda hönnunin tímalaus og þekkt þó að margir hefðu mögulega óskað sér að einhverjar framfarir yrðu á ytri byrði símans. Bakhliðin er þó ekki mött eins og áður heldur glansar hún en þróunin á innviðum tækisins er þess meiri. Litirnir eru þeir sömu og áður nema að Space Grey útgáfan kveður en svartur kemur í stað hennar ásamt einhverju sem Apple kalla jet black sem er enn dekkri og verður aðeins í boði í 128GB og 256GB útgáfunum,

Það sem gleður flesta er væntanlega að nú eru iPhone símar orðin vatns og rykheldir (upp að vissu marki) skv. svokölluðum IP67 staðli sem er frábært fyrir tækjaóða Íslendinga þar sem veðrið getur verið eins og það er.

Tengið fyrir heyrnartól, hinn svokallaði mini-jack er horfinn. Tengið sem hefur fylgt okkur frá vasadiskóum til síma gærdagsins er horfið. Apple hafa aldrei verið óhræddir við að stíga skref sem þessi en þeir voru fljótir að hætta með geisladrif í fartölvunum sínum sem dæmi svo þær gætu verið þynnri. Nú tengjast heyrnartól við Lightning tengið sem áður var notað til að hlaða símana en gegnir nú tvöföldu hlutverki ásamt því að þráðlaus heyrnartól munu auðvitað virka vel. Örvæntið þó ekki, millistykki fylgir með til að tengja heyrnartólin ykkar sé áhugi fyrir því. Og iPhone er nú með stereo hátalara í stað mono áður.

Önnur stór uppfærsla er geymsluplássið. 16GB útgáfan er fösuð út, eitthvað sem margir hafa óskað sér enda 16GB ansi lítið af plássi árið 2016. 32GB útgáfan er því minnsta útgáfan í dag sem hægt er að fá. 128GB og 256GB útgáfur eru svo í boði.

Myndavélin í iPhone 7 hefur fengið væna uppfærslu. Nú skartar myndavélin „optical image stabilization” sem mætti kalla hristivörn sem gerir myndbandsupptöku stöðugri. Hana var áður að finna í iPhone 6s Plus. Ljósopið er stærra, hleypir 50% meira ljósi inn ásamt nýrri 12MP myndflögu sem er afkastar 60% meira en fyrri tæki. Fjórfalt flass er kynnt til sögunnar og myndavélin á framhliðinni fær einnig væna uppfærslu.

Myndavélin í iPhone 7 Plus fær þó enn stærri og merkilegri uppfærslu. Nú eru tvær myndavélar, venjuleg 28mm linsa og 60mm linsa sem getur zoomað tvöfalt án þess að tapa myndgæðum. iPhone 7 Plus skiptir sjálfkrafa á milli linsanna og hægt er að zooma enn nær, allt að 10x en þá minnkar þó myndflöturinn. LG og Huawei hafa áður kynnt síma sem tvöföldum linsum og verður áhugavert að sjá hvernig Apple nálgast þetta, þeir hafa alltaf verið með þeim fremstu þegar kemur að gæðum myndavéla í snjallsímum og eflaust ekkert á áætlun hjá þeim að slaka á þar.

Örgjörvinn er svo uppfærður, enn hraðari en áður og rafhlöðuending á að vera betri. Skjárinn er að sama skapi orðin betri en það er kannski ekkert til að kryfja sérstaklega hér.

iPhone 7 og iPhone 7 Plus koma í sölu hjá Símanum föstudaginn 23.september. Forsala hefst eitthvað fyrr og bíðum við eftir frekari fréttum frá Apple hvenær hún skuli hefjast. Hvað símarnir munu svo kosta er ekki ljóst þegar þetta er skrifað, það mun þó auðvitað liggja fyrir þegar að forsalan hefst.

iphone7plus-matblk-pb_iphone7-jetblk-pb_pr-print