Allt

EM2016 hjá Símanum

20/05/2016 • By

 

Nú styttist í að boltinn fari að rúlla á EM2016, bæði á SkjáEinum og SíminnSport. Alls verða 25 leikir í opinni dagskrá en þeir verða sýndir á SkjáEinum á meðan 26 leikir fara fram á SíminnSport.

EM2016 hjá Símanum verður ekki bara fótbolti í 90 mínútur með 22 leikmönnum, dómurum, starfsfólki og forsvarsmönnum UEFA í stúkunni heldur svo miklu meira, sérstaklega fyrst að Íslenska karlalandsliðið verður með í fyrsta skipti á stórmóti. Þetta verður sannkölluð þjóðhátíð sem við ætlum að sýna frá eins vel og við getum með úrvalsfólki í hverri stöðu.

Þorsteinn J. heldur utan um mótið, reynslubolti þegar kemur að stórmótum sem þessum og fyrir margt löngu búinn að sanna sig sem toppeintak í svona verkefni. Þorsteinn stýrir allri umfjöllun um mótið í EM svítunni á svölum Gamla Bíós, ásamt Pétri Marteinssyni og stórum hópi sérfræðinga sem munu spá í spilin fyrir leiki, greina leikinn og allt sem þarf að ræða að leik loknum og meira til. Fyrir alla leiki Íslands verður tveggja tíma upphitun enda spennustig þjóðarinnar ansi hátt, eftir leiki munum við sýna frá öllu því sem þarf að sýna frá enda þurfum við ekkert að skipta yfir í áður auglýsta dagskrárliði. Við erum í þessu til að sýna frá EM2016!

Hugrún og Sigríður Þóra munu fanga stuðið á Íslandi, heima og að heiman í þættinum EM á 30 mínútum sem fer í loftið þegar að síðasta leik hvern dags er lokið. Þær taka fyrir allt það helsta frá deginum ásamt því að sýna okkur allt hitt, allt sem gerist í kringum leikina, leikmennina og einfaldlega þjóðina alla ásamt því að taka púlsinn á netinu, mun #emísland trenda á Twitter? EM á 30 mínútum beinir augunum  líka að mannlega sjónarhorninu og þannig stækkum við sviðsmyndina út fyrir völlinn sem spilað er á.

Gummi Ben mun lýsa yfir 20 leikjum í keppninni, það eitt og sér er frábært. Um er að ræða fyrsta lánssamning Íslandssögunnar í stétt þula og þökkum við félögum okkar hjá 365 kærlega fyrir þessa stoðsendingu. Valtýr Björn mun einnig lýsa leikjum ásamt Geir Magnússyni sem margir muna eftir en hann tekur hljóðnemann aftur úr hillunni og stígur fram á stóra sviðið. Heiðar Austmann, útvarpsmaður mun svo sömuleiðis taka að sér að lýsa leikjum. Heiðar er nýgræðingur þegar kemur að því að lýsa leikjum en öll reynslan úr útvarpinu mun nýtast honum vel.

EM2016 er ein stærsta stundin í íslenskum fótbolta, Ísland spilar 3 leiki í riðlakeppninni og allt getur gerst. Við hvetjum alla áhorfendur til að taka þátt í þessu með okkur á Facebook, Twitter, Instgram, Snapchat og bara alls staðar með #EM2016. Við viljum endilega fá skilaboð, myndir, video og bara allt í gegnum samfélagsmiðla eða á netfangið em2016@siminn.is.

Áfram Ísland!