Allt

Apple kynning

21/03/2016 • By

Apple luku fyrr í kvöld árlegri vörukynningu sinni en í þetta skiptið voru það nýr iPhone og iPad Pro sem stóður uppúr en einnig var farið yfir nýjungar í iOS stýrikerfinu, tvOS sem nýja AppleTV keyrir á og watchOS sem að Apple úrið keyrir á.

iPhone SE

Fyrir þá sem vilja iPhone 6s en finnst hann of stór og horfa til fyrri iPhone tækja þegar kemur að hinni fullkomnu skjástærð er nýji síminn iPhone SE tækið sem viðkomandi ætti að horfa hýru auga til.

Síminn er með öllu því magnaða innvolsi sem að iPhone 6s hefur en er með 4″ skjá eins og iPhone 5s var. A9 örgjörvinn og M9 hliðarörgjörvinn eru í tækinu ásamt 12MP myndavél en myndavélin að framan er 1.2MP. Myndavélin styður Live Photos sem Apple kynntu með 6s og 6s Plus ásamt því að retina flassið er einnig í iPhone SE. Hér er því um að ræða frábært tæki nema í minni umgjörð, eina sem í raun vantar er 3D Touch virknin.

Ekki liggur fyrir hvenær iPhone SE kemur til Íslands eða hvað hann mun kosta en við munum auðvitað láta vita af því um leið og við fáum frekari upplýsingar frá Apple.

iPhone SE

iPad Pro

Apple kynntu svo líka nýtt tæki í iPad Pro vörulínunni sinni en sá nýji er með 9,7″ skjá á meðan að hinn iPad Pro er með 12,9″ skjá. Innvolsið úr þeim stærri er hér komið í minni umgjörð, sömu umgjörð og iPad Air spjaldtölvurnar hafa og allir þekkja.

Tækið er með A9X örgjörva eins og sá stærri og M9 örgjöva nema að búið er að hækka klukkuhraðann eilítið í A9X enda minni skjár sem tækið þarf að keyra á. Sá minni virkar einnig með pennanum og öllum þeim fjölmörgu aukahlutum sem til eru nú þegar í dag fyrir iPad Pro. iPad Pro er svo með myndavélina úr iPhone 6S þannig að fyrir þá sem vilja taka myndir á spjaldtölvuna sína er hægt að treysta á að myndirnar komi vel út.

iPad Pro

iOS 9.3

Stærsta viðbótin í uppfærðu iOS er án nokkurs vafa Night Shift sem stillir skjáinn eftir tíma dags þannig að hann á að þreyta augun minna, þannig á að vera auðveldara að sofna eftir að hafa starað á skjáinn fyrir svefninn. Þeir sem þekkja f.lux vita að þetta svínvirkar en f.lux er til fyrir helstu stýrikerfi en nú er sú virkni hér innbökuð í stýrikerfið frá Apple. Fyrir áhugasama PC og Mac notendur mæli ég með f.lux, það tekur smá tíma að venjast en svo getur maður varla ímyndað sér lífið án þess. Næsta útgáfa af Android stýrikerfinu sem kallast Android N mun einnig hafa svipaða virkni en hún er nú þegar komin í prufuútgáfum af stýrikerfinu.

Hafa ber svo í huga að Night Shift mun aðeins virka í iPhone 5s og nýrri símum, ekki til dæmis iPhone 5c og iPhone 4. Fyrsti iPad mini mun heldur ekki fá Night Shift og aðeins iPad Air og nýrri ásamt iPad Pro. Sjöttu kynslóðar iPod touch er eina iPod tækið sem mun fá þessa virkni þó að all tækin njóta vissulega iOS 9.3 og allra þeirra betrumbóta sem þar eru að finna undir húddinu.