Allt, Apple, Fróðleikur, GSM, iPhone, Tæki & Tól

Hvað var Apple að kynna?

10/09/2015 • By

Apple kynningu dagsins er nú lokið, margir búnir að bíða spenntir eftir hver tíðindi dagsins yrðu en nú liggur þetta nú allt fyrir. Uppfærðir iPhone símar eins og allir áttu von á, nýr iPad mini, enn stærri iPad sem kallast iPad Pro og uppfært AppleTV sem er enn öflugra og með enn fleiri möguleikum en áður.

iPhone
iPhone 6s og iPhone 6s Plus eru nýju símarnir. Með uppfærðu innvolsi og 12MP myndavél innanborðs í stað 8MP áður ásamt nýrri virkni sem kallast 3D Touch sem nemur hversu fast ýtt er á skjáinn og þannig opnast möguleikar og stillingar eftir því hvernig er ýtt á skjáinn. 12MP uppfærslan kemur líka með 4K upptöku, sem er gott. Útlitslega eru þetta klassískir iPhone símar og engar stórvæilegar breytingar gerðar á ytra útliti. Gárungarnir segja oft að S-ið við iPhone s símana þýði „subtle” eða smávægilegt enda verið að gera smávægilegar uppfærslur með þau tæki í stað þess að taka stór stökk eins og oft eru gerð á milli kynslóða.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær nýju iPhone símarnir koma í sölu á Íslandi en við munum rækilega láta vita af því þegar við vitum nánari dagsetningar.

6splus

iPad
Spjaltölvurnar fá líka uppfærslu en fjórða kynslóð iPad mini var kynnt og nú er öflugri örgjörvi innanborðs ásamt betri myndavél.

„Í dag kynnum við stærstu iPad fréttirnar síðan við kynntum iPad fyrst” sagði Tim Cook forstjóri Apple, hann meinti það mögulega bókstaflega en iPad Pro er 12,9 tommu spjaldtölva sem er eiginlega smá blanda af spjaldtölvu og fartölvu. Hægt er að nota lyklaborð og Apple kynnti penna til leiks sem búinn er allskyns skynjurum sem á að vera leikur einn að nota. Vélinni svipar til Microsoft Surface fyrir þá sem þekkja þær en þó samt ekki. Microsoft stigu á svið og sýndu hvað vélin hentar vel í Office umhverfinu þeirra.

ipad-pro-1200-1

Apple TV
Það mætti segja að AppleTV boxið sé nú orðið fullorðið en hingað til hafa Apple alltaf sagt litla svarta boxið vera áhugamál. AppleTV hafa hingað til keyrt iOS, sama stýrikerfi og símarnir og spjaldtölvurnar en án möguleikans að sækja öpp en loksins er sá möguleiki komin með nýju stýrikerfi sem Apple kalla tvOS. Stýrikerfið byggir á iOS og bætir við mögleikanum að setja inn öpp, fjarstýringin er uppfærð með snertifleti svo hægt er að skrolla þægilega í gegnum allt og Siri hjálpar til við að leita af efni til að horfa á. Tækið styður iTunes, Netflix, Hulu og Showtime streymisþjónusturnar ásamt því að spila tölvuleiki.

appletv2