Allt

Nexus 6 er mættur

14/01/2015 • By

Loksins segja sumir en Nexus 6 er vissulega loksins að detta í verslanir Símans. Sjötti Nexus síminn er loksins mættur en í þetta skiptið er hann framleiddur af Motorola sem hafa verið að gera ótrúlega góða hluti með Moto X og Moto G símunum sínum.

Nexus 6 er einmitt byggður á Moto X nema hann er aðeins stærri. Nexus 4 og 5 voru framleiddir fyrir Google af LG, sá þriðji sem nefndur var Galaxy Nexus var Samsung tæki sem og tæki númer tvö sem kallaðist Nexus. Nexus One sem var fyrsti síminn í röðinni var framleiddur af HTC. En nú er semsagt komið að Motorola í röðinni.

Nexus símar hafa það umfram aðra síma að keyra Android stýrikerfið eins og það kemur af kúnni, alveg eins og Google býr það til. Aðrir símar hafa breytt viðmót og mögulega hluti sem bætt hefur verið við en Nexus tæki keyra alltaf Android eins og það er hugsað af skapara þess.

Nexus 6 kemur með Android 5.0, Lollipop beint úr kassanum sem er nýjasta útgáfan af Android. Þessi útgáfa sem er nýkomin er eflaust stærsta uppfærsla Android í nokkur ár enda útlit og viðmót kerfisins nokkuð breytt og búið að bæta við nokkrum frábærum möguleikum.

Nexus tæki fá líka uppfærslur talsvert fyrr en önnur símtæki einfaldlega vegna þess að ekki þarf að eiga mikið við stýrikerfið, enda það nær óbreytt. Mörgum finnst það kostur.

Nexus 6 er stærri en fyrri Nexus símar eða alls 6 tommur (raunstærð 5.96 tommur). Síminn er með QHD skjá sem nær 2560×1440 upplausn, 13 MP myndavél með LED flassi, fjögurra kjarna örgjörva sem keyrir á 2,7 Ghz ásamt 3 GB af vinnsluminni.

Þetta er tæki með öllu því helsta sem góðir símar þurfa að hafa, hönnun símans er falleg og tímalaus en Motorola eru almennt taldir hafa unnið sína vinnu vel þegar kom að hönnun og smíði Moto X sem þessi sími byggir á.

Tækið er að detta í allar verslanir okkar og hann er auðvitað komin inn á Vefverslun Símans. Nexus 6 kostar 127.990.

Nexus 6