Allt

4G Símans nær til 72% landans

01/12/2014 • By

4G4G farsímanet Símans nær nú til ríflega 72% landsmanna. Það hefur stækkað ört á árinu eða sexfaldast litið til fjölda senda. Síminn er kominn með þessa fjórðu kynslóð farsímasenda í alla landshluta. Farsímanetið stækkar ört og eru Hveragerði, Fnjóskadalur, Höfn í Hornafirði og Reyðarfjörður næst inn.

Nú í nóvember hefur 4G verið eflt í Kópavogi og Hafnarfirði, og sendar settir upp við Geysi, í Grindavík og á Sauðárkróki.  Í september setti Síminn til að mynda upp 4G á Ísafirði og Akranesi.

Ljóst er að sífellt fleiri landsmenn eru tilbúnir fyrir 4G tæknina og nú er svo komið að 85 af hverjum 100 seldum símtækjum í verslunum Símans styðja 4G. Þróunin er hröð og litið á heildina styður nú ríflega fjórðungur tækja í umferð  4G miðað við 2% í ársbyrjun 2013.

Farsímanetið er ólíkt fastanetinu heima fyrir að því leyti að hraðinn á því deilist á milli þeirra sem nota það. Nú þegar 4G netið þéttist og æ fleiri eigendur 4G tækja færast yfir á þessu fjórðu kynslóð farsímaneta verður enn meiri hraði til skiptana handa þeim sem stóla á 3G kerfið, en það hefur einnig verið eflt á undanförnum árum með sífellt auknum hraða. Uppbygging 4G bætir því upplifun allra viðskiptavina Símans á netinu, hvort sem þeir eiga 4G tæki eða ekki!

Frá því í vor hafa 4G sendar verið settir upp víða um land. Á Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Einnig í Keflavík, Stykkishólmi, Borgarnesi og Vestmannaeyjum. Þá hefur netið verið þétt á höfuðborgarsvæðinu og sett upp í stærstu sumarbústaðarlöndum landsins, eins og í  Grímsnesi, Hvalfirði og á Þingvöllum.