Allt

iPhone 6 og iPhone 6 Plus … já og úrið.

09/09/2014 • By

Fyrr í kvöld voru vinir okkar hjá Apple með kynningu. Kynntur var til sögunnar nýr iPhone, iPhone 6 og lannað eintak iPhone 6 Plus. Símarnir eru báðir stærri en fyrri kynslóðir en iPhone 6 er 4,7 tommur á meðan að iPhone 6 Plus er 5,5 tommur. Fyrri kynslóðir voru 4 tommur svona til samanburðar.

Símarnir eru annars keimlíkir, báðir með nýjan örgjörva A8 og til hliðar við hann er M8 sem eingöngu sér um að nema hreyfingar, áttir, þrýsting og fleira.

Skjáupplausn er aukin í báðum tækjum en iPhone 6 Plus nær 1080 x 1920 en iPhone 6 nær 750 x 1334. Ekkert slor og Apple lofa kristaltærum litum og að gott sé að horfa á skjáinn frá hvaða sjónarhorni sem er. Tækin hafa svo fengið smávægilega hressingu á ytra útliti, ekkert stórkostlegt en þau eru falleg fyrir augað, mjög falleg.

iOS 8 verður á tækjunum, uppfærð útgáfa af stýrikerfinu sem Apple reyndar kynnti fyrr í sumar. iOS 8 verður aðgengilegt fyrir eldri Apple tæki núna í næstu viku, eða 17.september. iOS 8 er fullt af nýjungum sem margir hafa beðið eftir, en núna verður hægt til dæmis að skipta út lyklaborði og tilkynningar frá forritum fá aukið vægi og þægilegra verður að vinna með þær. Svo er auðvitað fullt af öðrum viðbótum, en ekki hvað ?

Apple kynnti líka Apple Pay sem er snertilaus greiðsluleið þar sem iPhone notar NFC tæknina. Kortaupplýsingar eru þá geymdar í tækinu og óþarfi að taka upp veskið, símanum er hreinlega rennt upp að NFC posa sem eru nú þegar komnir í margar verslanir á Íslandi og málið er afgreitt. Hvort og hvenær Apple Pay muni virka á Íslandi verður að koma í ljós síðar.

Og í lokin kynnti forstjóri Apple, Tim Cook svo snjallúrið sem þeir kalla Apple Watch. Tæki sem búið er að tala um í nærri tvö ár en fáir vissu eitthvað um. Úrið keyrir á móti iPhone og gerir notendum kleyft að gera hina og þessa hluti án þess að taka símann úr vasanum. Úrið sem mun koma í nokkrum útgáfum og tveimur stærðum kemur þó ekki á markað fyrr en á næsta ári.

iPhone 6 og iPhone 6 Plus koma í sölu hjá Símanum þann 31.október.  Forpöntun er hafin.