Allt

Síminn varar við þrjótum á netinu

01/09/2014 • By
Hér má sjá falsaða póstinn sem ranglega var kenndur við Símann.

Hér má sjá falsaða póstinn sem ranglega var kenndur við Símann.

Síminn varar eindregið við þrjótum sem hafa sent tölvupóst á landsmenn þar sem óskað er eftir kreditkortaupplýsingum í nafni fyrirtækisins.
Síminn biður aldrei um kreditkortaupplýsingar í tölvupósti. Við hvetjum því viðskiptavini, sem og aðra sem hafa fengið þennan póst, til að hafa varann á og eyða honum. Hafi viðskiptavinir fallið í gryfjuna og gefið upp kortaupplýsingar bendum við þeim á að hafa samband við viðskiptabankann sinn.
Textinn í tölvupóstinum sem sendur var á laugardag frá netfanginu; þjonusta@mail.com, er ritaður á lélegri íslensku. Þar stendur:

Aðgangur að reikningnum þínum er takmarkað við eftirfarandi næst.
Við tókum eftir að þú hefur greitt reikning tvisvar
Skrá nr þitt° : “00397131/7404”
Til að staðfesta endurgreiðslu þína

Skráðu þig inn á nú ».

Þegar linkurinn var opnaður kom upp form þar sem óskað var persónuupplýsinga og kreditkortanúmers.

Síminn ítrekar: Aldrei gefa upp kreditkortanúmer til þriðja aðila með þessum hætti. Sjá: Netöryggi.is

Ráð netöryggissveitar yfirvalda eru meðal annars:
• Ef tilboð á Netinu hljómar of vel til að vera satt, þá er það líklega ekki satt
• Slæmar ritvillur eru oft einkenni blekkinga á Netinu
• Aldrei borga neitt fyrirfram sem þú ert ekki öruggur um
• Passaðu vel upp á bankaupplýsingarnar þínar
• Notaðu einhvers konar síu til að forðast ruslpóst
• Hunsaðu allan tölvupóst þar sem þú ert ekki nafngreindur beint, heldur hefst t.d. með “Dear customer”.
• Forðastu að smella á vefföng sem þér berast í tölvupósti, þau geta verið fölsuð. Oft eru slík vefföng frekar löng og innihalda mörg % merki, sem ætlað er að villa um fyrir fólki.
• Notaðu “phishing” varnir í vafranum
• Forsenda þess að gefa upp banka- og einkaupplýsingar á vefsíðum er að samskiptin séu dulkóðuð.
• Skoðaðu vandlega reikninga fyrir kreditkortið þitt
• Ef þú lendir í klóm slíkra manna, hikaðu ekki að leita til lögreglunnar

Viðvörun frá því á laugardag á mbl.is