Allt

260 keppa í League of Legends á Skjálftamótinu

15/04/2014 • By

league of legendsÁ þriðja hundrað hafa skráð sig á League of Legends tölvuleikjamót Skjálfta sem hefst á morgun 16. apríl – þar af tvær kvenkyns. Aldurstakmarkið er 16 ára og eldri og eru minnst fimm í hverju liði. 45 lið keppa á mótinu.

Margir tölvuleikjaaðdáendur eru innan Símans og starfrækja klúbb sem kallast Lansíminn. Klúbburinn stendur fyrir nokkrum mótum á ári fyrir Símastarfsfólk og stendur hann nú að baki Skjálfta.

Síðast var Skjálftamót haldið 2005 og keppt í Counter Strike, Quake III, Warcraft 3: The Frozen Throne, Battlefield 1942 og Enemy Territory. Nú er keppt í vinsælasta netleiknum um þessar mundir: League of Legends.

Félagarnir í Lansímanum segja leikinn hafa gert Riot Games að risafyrirtæki. Fyrirtækið hafi farið frá því að vera „no name“ í að verða stærst á sínu sviði í heimi á einu ári.

Leikar hefjast á miðvikudag en einnig verði spilað á fimmtudag og föstudag. Fyrstu leikir klukkan 18, svo 20 og loks 22. Hver leikur sé að meðaltali 35 mínútur, en teygi sig stundum yfir klukkustundina. Sigurliðið í úrslitunum þarf að leggja andstæðinginn þrisvar. Hugsunaleysi í sekúndubrot getur kostað sigurinn.

Það er mikið í húfi; ekki aðeins heiðurinn innan leikjasamfélagsins, heldur er heildarvirði vinninga sem Síminn leggur til er um 200 þúsund krónur. Auk þess standa vonir til þess að Riot Games, leikjaframleiðandinn sjálfur, gefi gjaldeyri sem hægt er að nota innan leiksins. Þá er mögulegt að úrslitin verði í beinni útsendingu í Háskólabíói í samstarfi við Senu.