Allt

Hinir ýmsu möguleikar á Spotify

08/10/2013 • By

Það er margt hægt að gera á Spotify annað en að hlusta á tónlist. Þar er t.d. heill „app” heimur sem breytir og bætir annars frábæra þjónustu.

Fuse
Fyrir þá sem vita kannski ekki nákvæmlega hvað þeir vilja hlusta á mætti benda á Fuse en þar má finna ógrynni lagalista úr ólíkum áttum og tónlistarstefnum. Þannig má skipta snögglega úr öllu því besta sem að Austurstrandar rappið í Bandaríkjunum hefur gefið af sér með listamönnum eins og Wu-Tang, Mobb Deep og A Tribe Called Quest yfir í lagalista sem innihalda bara lög með saxafón sólóum og þaðan yfir í lagalista með öllum lögunum sem hljómuðu á lokaathöfn Ólympíuleikanna í London í fyrra.

TuneWiki
Ég sjálfur get með illu móti munað texta og þar kemur TuneWiki sterkt inn en það sýnir texta við ómælanlegt magn af lögum, og líka fullt af Íslenskum lögum. TuneWiki sýnir textann í heild og færir hann til eftir því hvað er verið að syngja hverju sinni eins og um karíókí væri að ræða. Þannig er hægt að vera í blússandi sönglagakeppni heima í stofu í stað þess að fara á Ölver.

RollingStone Recommends
Frá árinu 1967 hefur tónlistartímaritið RollingStone verið einn af hornsteinum tónlistarblaðamennsku. Þar hafa þungavigtarmenn starfað sem eru öllum tónlistáhugamönnum að góðu kunnir og þar má sem dæmi nefna Lester Bangs (sem að Philip Seymore Hoffman lék í kvikmyndinni Almost Famous), Kurd Loder sem seinna stýrði MTV News á gullárum MTV sjónvarpsstöðvarinnar og var einn af þeim fyrstu í heiminum að segja frá andláti Kurt Cobain forsprakka Nirvana og David Fricke sem hefur verið tíður gestur á Iceland Airwaves og gert Íslenskri tónlist góð skil. Forritið þeirra í Spotify inniheldur ekki bara lagalista gerða af blaðamönnum blaðsins heldur líka lagalista eftir þekkta tónlistarmenn og hægt er að lesa dóma blaðsins inn í forritinu ásamt því að hlusta strax á viðkomandi plötu í Spotify.