Allt

Síminn sýnir samfélagsábyrgð í verki

24/07/2013 • By

Hvað fær Símann til þess að hvetja landsmenn til þess að sleppa því að nota farsímann eins og hann gerir í nýrri herferð gegn farsímanotkun ökumanna?

Síminn stendur fyrir átakinu ásamt Samgöngustofu; herferð sem unnin er af Tjarnargötunni og eftir frábærri hugmynd þeirra að samspili gagnvirkrar auglýsingar og samfélagsmiðla. Myndbandið á síðunni Höldum fókus sýnir með áþreyfanlegum hætti hvernig við getum verið þátttakendur í slysi, þótt við sitjum í sófanum heima hjá okkur!

Jú, það sem drífur Símann áfram er samfélagsleg ábyrgð. Við hjá Símanum viljum sjá ábyrga notkun á þjónustunni, því það er lífshættulegt að skoða Facebook á ferð – það er þegar sá sem liggur á netinu stýrir einnig bílnum!

Átakið snýr nú ekki aðeins að því að benda á hættuna við að tala í símann á ferð eða senda sms. Með snjallsímunum hefur vandinn breyst.

Nú hringja símnotendur ekki aðeins með annarri og halda símanum að eyranu, heldur þurfa þeir nú einnig að horfa á skjáinn þegar þeir velja númerið. Það tekur tíma og alla athygli af umferðinni á meðan. Og með því einu að ýta á skjáinn ertu komin á fréttavefina, Facebook-síðuna þína, farin/n að skoða veðrið eða annað sem heillar.

Þetta verður örugglega allt hægt með öruggum hætti þegar við fáum „auto-pilot“ tækni í bílana – og þá er ekki átt við „cruise control“ 😉

Með snjallsímavæðingunni eru símtækin orðin afþreyingartæki, þar sem hægt er að horfa á myndbönd og lesa blöðin svo dæmi séu nefnd. Þetta hentar einfaldlega ekki undir stýri – eins og öllum ætti að vera ljóst. Það er lífsnauðsynlegt að sleppa þessu því það keyrir enginn bíl eftir minni. Umhverfið í kringum okkur er lifandi, síbreytilegt og óútreiknanlegt.
Síminn er stoltur af því að taka þátt í átaki sem um 10% þjóðarinnar sá á fyrsta degi.

Tökum því áskoruninni að halda fókus.