Allt

Sól, grill, Penninn og Síminn á Ísafirði í dag

31/05/2013 • By
Mynd/Sigurður Svansson

Mynd/Sigurður Svansson

Félagarnir í 3. flokki karla í BÍ/Bolungarvík verða líklegast sveittir fyrir utan Eymundsson frá klukkan 14 í dag, föstudaginn 31. maí. Þeir ætla að grilla pylsur fyrir gesti gömlu Bókhlöðunnar, sem hýsir nú Eymundsson – og Símann, vegna andlitslyftingar sem verslunin hefur fengið. Og veðrið. Frábært.

Breytt og bætt útlit verslunarinnar á eftir að vekja athygli. Til að mynda þeirra sem ganga framhjá henni, því í fyrsta sinn í langan tíma sést inn í verslunina.

„Margt fólk hefur fylgst með framkvæmdunum og séð hvernig búið er að rífa frá gluggunum. Það sást aldrei inn í búðina. Nú verður þetta lifandi verslun og að sjálfsögðu verður heitt á könnunni. Við vonumst til að sjá sem flesta,“ segir Steingrímur Rúnar Guðmundsson, verslunarstjóri, spenntur að sjá viðtökurnar.

„Fólk hefur fylgst með okkur fylla gámana af rusli. Við höfum verið að spæna út gömlum innréttingum og rífa úr kjallaranum. Við þyrmdum að sjálfsögðu dýrgripum,“ segir hann.

„Sumir gripirnir komu á óvart en við vissum af hinum og þessum,“ segir Steingrímur sem hvetur gesti til þess að spyrja hann nánar um gripina og framkvæmdirnar um leið og þeir skoða nýuppsetta skrifstofuhúsgagnadeild Pennans og fá ráðgjöf þeirra og sérfræðinga Símans, sem hefur bækistöð sína í versluninni.

„Sérfræðingar Símans að sunnan koma og veita síma- og netráðgjöf. Þeir geta skoðað þjónustuleiðir miðað við notkun, sett upp Síma-appið og gefið góð ráð,“ segir Steingrímur sem ýkir örlítið þetta með sérfræðingana. Þeir eru nefnilega ekki allir að sunnan!

„Já, létt grín bara. Ísfirðingurinn og Símamaðurinn Rúnar Jón Hermannsson snýr heim um helgina. Hann er einn þessara sérfræðinga.“