3G, Allt, GSM, iPhone

4G styrkir öflugasta farsímakerfi landsins enn frekar

14/03/2013 • By

Meiri hraði, meira magn. Það hefur verið krafa viðskiptavina Símans sem hann hefur mætt með öflugasta 3G kerfi landsins. Nú ætlum við enn að efla þetta dreifikerfi með 4G tækninni og tryggja viðskiptavinum okkar frábært netsamband á ferðinni.

4G verður í boði þegar líður á árið og það ætti ekki að fara framhjá neinum þegar við störtum sendunum. En hafðu þó í huga að rétta búnaðinn þarf fyrir 4G og 1800 tíðnina. Við höfum þó tryggt að úrvalið verði gott því við hjá Símanum völdum 1800 tíðnibandið. Það er algengasta tíðnin í Evrópu og því ættu tæki keypt í Evrópu að virka á kerfinu okkar. Þeir sem hafa áhuga geta flett upp símum á GSM Arena, eða leitað til okkar, til þess að sjá hvort þeirra eða hvaða símar styðja 4G á 1800 tíðnibandinu.

Flest þekkjum við að iPhone 5 eru sagðir virka á 4G og líklega eru margir iPhone 5 eigendur forvitnir að vita hvenær þeir geta notað 4G tæknina. Það verður þegar Apple hefur sjálft prófað kerfið okkar og opnað fyrir þann möguleika í símanum. Þetta gildir jafnt um öll fjarskiptafyrirtæki, hvar sem er í heiminum.