Fróðleikur, GSM, Hugbúnaður

Íslenska í snjallsímum

11/10/2012 • By

Fyrir okkur Íslendinga er nauðsynlegt að geta haldið uppi samskiptum á okkar ástkæra ylhýra, sama hvort það sé í máli eða rituðum texta. Með snjallsímavæðingunni hefur okkar litla tungumál verið með næstum því frá upphafi en þó hafa mikil og stór skref verið stigin síðustu mánuði sem gott er að benda á og upplýsa eigendur snjallsíma um.

Íslenska hefur verið hluti af Android stýrikerfinu frá Google næstum því frá byrjun þökk sé litlu forriti sem heitir Scandinavian Keyboard. Hver notandi þurfti þó að sækja það forrit sérstaklega og setja upp svo að íslenskir stafir væru aðgengilegir á lyklaborðinu en með tíð og tíma bættist íslenskan við grunnvirknina hjá flestum ef ekki öllum framleiðendum Android síma. Fljótlega kom líka orðabók sem fengin var frá Orðabók Háskólans sem auðveldaði allan innslátt og flýtti fyrir honum en þar var þó engin sérstök virkni bakvið tjöldin sem reyndi að giska á hvað notandinn myndi slá inn næst með tilliti til þeirra orða sem búið var að slá inn fyrir.

Núna er þó loksins komið forrit fyrir Android síma sem auðveldar innslátt verulega og getan í því forriti er það mikil að allur innsláttur verður enn hraðari, stafsetningin réttari og því enn auðveldara en nokkru sinni fyrr að skrifa inn íslenskan texta á Android síma. Forritið Swiftkey sem hefur unnið fjölda verðlauna og trónir á toppi Play Store í 25 löndum gerir okkur kleift að gera þetta. Við hjá Símanum getum ekki annað en mælt heilshugar með þessu forriti. Það er hægt að hafa nokkur tungumál í gangi í einu og því lítið mál að skipta á milli íslensku og ensku eða enn fleiri tungumála sé vilji fyrir því, eitthvað sem hentar fjöltyngdum notendum vel eða þá bara þeim sem vilja slá um sig með t.d. dönsku slettum.

Swiftkey með íslensku lyklaborði

Nýlega bættist svo enn önnur snilldin við Android en þá settu Google í loftið íslensku stuðning fyrir voice input (mögulegt nýyrði gæti verið raddinnsláttur). Það þýðir að hægt er að tala við símann það sem annars væri slegið inn sem flýtir enn meira fyrir öllum innslætti. Það er lygilegt hversu vel þessi tækni virkar og enn magnaðra að tungumálið okkar sé komið þarna inn. Það má þó þakka nokkrum Íslendingum bæði hjá Háskólanum í Reykjavík og Google.

Íslenskur raddinnsláttur

iPhone og iPad eigendur hafa þangað til nýlega með tilkomu iOS 6 verið aðeins verr settir en Android notendur þegar kemur að góðum Íslensku stuðningi en núna loksins er lyklaborðið orðið gott og með fullan stuðning fyrir íslenskt lyklaborð. Þar er líka sú virkni að tækið reynir að giska á hvað notandinn er að reyna að skrifa sem flýtir fyrir innslætti og hvetjum við allar eigendur iPhone og iPad til að uppfæra í iOS6 og nýta sér þetta virkni.

Swiftkey er aðgengilegt í Play Store fyrir alla Android síma og spjaldtölvur og kostar $3.99 en hægt er að prófa 30 daga prufuútgáfu sem ætti að vera nægur tími til að átta sig á hversu frábært þetta forrit er.