Allt

Ritskoðun á Internetinu

17/09/2012 • By

Síðustu daga hefur verið rætt um ritskoðun á Internetinu (Fréttablaðið og dv.is) og hvort að stóru fjarskiptafélögin hér á landi íhugi slíkt. Nágrannalöndin eru eða hafa að minnsta kosti rætt alvarlega að setja upp ritskoðun á þann hátt að loka t.d. klámsíður og síður á netinu þar sem stunda má fjárhættuspil.

Skoðun Símans í þessum efnum er einföld og skýr; Síminn telur það ekki í sínum verkahring að hamla aðgang að ákveðnum vefsíðum og hefur ekkert slíkt í hyggju.

Starfsmenn Símans trúa á opið og frjálst Internet sem auðgar líf fólks með fróðleik og gleði. Tól sem smækkar heiminn og auðveldar öll samskipti manna á milli rétt eins og þegar Ísland tengdist umheiminum 1906 þegar fyrsti sæstrengurinn var dreginn á land á Seyðisfirði.

Frá árinu 2008 hefur Síminn boðið upp á endurgjaldslausa þjónustu til viðskiptavina sinna sem kallast Netvarinn. Hann gerir fólki kleift að stilla mismunandi síur eftir því hvers konar efni það vill útiloka af netinu. Það tól eitt og sér er ekki 100% vörn en er þó gott verkfæri fyrir viðskiptavini okkar sem vilja ekki villast inn á vefsíður sem þeim gætu þótt óæskilegar fyrir sig eða börn sín. Tilgangur Netvarans er fyrst og fremst að vernda börn fyrir óæskilegu efni svo foreldrar þeirra geti treyst því nokkuð vel að annars óhindraður aðgangur þeirra að netinu sé þeim áhyggjulaus. Síminn hefur verið í góðu samstarfi við SAFT í gegnum árin og mun halda því góða samstarfi áfram er þó er það fyrst og fremst alltaf á ábyrgð foreldra að fræða og upplýsa börn sín um þær hættur sem leynst gætu á Internetinu.

Síminn ítrekar að ekki stendur til að hálfu fyrirtækisins að flokka Internetið og leggja mat á það hvað skuli þar þrífast og hvað ekki. Við fögnum umræðunni og fylgjumst vel með henni erlendis og viljum taka virkan þátt í þeirri umræðu sem um þetta mál skapast á Íslandi.