Meira Ísland

Hringferð Símans – dagur 5

20/07/2012 • By

Já veðrið hefur aldeilis leikið við okkur hér á Suðurlandinu í dag. Sólin braust fram úr skýjunum á ný og brosti framan í okkur. Við héldum upp á það með því að gefa tvo síma, Samsung Galaxy SIII og Samsung Galaxy X-cover í Vík í Mýrdal og svo í Vestmannaeyjum.

Við gerðum ekki boð á undan okkur í Vík enda tók það íbúa bæjarins dágóðan tíma að koma til okkar þar sem við stóðum uppi á hæðinni hjá kirkjunni. Myndefnið var ekki af verri endanum, falleg útsýnismynd yfir Reynisdrangana og út á sjó. Það var svo hann Jón Berg Sigurðsson sem kom fyrstur upp brekkuna og nældi sér í einn X-Cover síma.

Jón Berg Sigurðsson

Því næst var leiðinni haldið áfram og við mættum til Vestmannaeyja eins og lofað hafði verið. Það var hægara sagt en gert að finna fáfarin stað í Heimaey, enda mikið líf að vanda í eyjunni. Að lokum tókum við okkur stöðu uppi í Gaujulundi og gáfum vísbendinguna “Ég sit á steini í Vestmannaeyjum. Hér er skjólsælt.” Það var nóg fyrir hana Lilju Ólafsdóttur sem kom eins og eldibrandur með alla fjölskylduna með sér. Hún sagði okkur svo að það væru bara tveir skjólsælir staðir í Vestmannaeyjum og hún giskaði á réttan. Við óskum henni til hamingju.

Lilja Ólafsdóttir og barnastóðið

Þá er komið að því að loka hringnum. Eftir rúmlega 2500 kílómetra ferðalag erum við búin að fara um alla landshluta og munum enda þetta á Höfuðborgarsvæðinu morgun. Reglurnar verða svipaðar, gefin verður vísbending hvar síma er að finna og sá fyrsti á staðinn fær að eiga hann. Fylgist með lokadeginum á morgun, laugardag. Hann verður æsispennandi!