Meira Ísland

Hringferð Símans – dagur 3

19/07/2012 • By

Það er aldeilis mikið búið að ganga á síðustu þrjá daga. Við erum búin að ferðast hátt í 1500 kílómetra, hitta frábært fólk, kynnast nýjum stöðum og síðast en ekki síst gefa fjóra snjallsíma! Í dag var það Akureyri sem tók á móti okkur, frekar grá og guggin, en það kom ekki að sök.

Akureyri er höfuðstaður Norðurlands. Þar bjó Matthías Jochumson, sá er samdi þjóðsönginn, og þar er einnig að finna Brynjuís og fleiri rétti með berneise sósu en hægt er að telja. Þar talar fólk líka mun harðar heldur en annars staðar á landinu, enda er oft talað um norðlenska hreiminn.

En við vorum í rokna stuði á Akureyri! Við byrjuðum á að fela síma í Hlíðarfjalli. Þá þurfti að leysa tvær þrautir, fatta staðsetninguna og svo þurfti að hlaupa upp í fjall og finna símann sem var að spila “Á skíðum skemmti ég mér”. Hún Ingunn Þorvarðardóttir var fyrst á svæðið og fann símann eftir þónokkra fjallgöngu. Við óskum henni að sjálfsögðu til hamingju.

Ingunn Þorvarðardóttir

En við vorum ekki hætt þar. Næst var ferðinni heitið upp að Háskólanum á Akureyri. Þar var   gefin vísbendingin “Þaðan sem ég sit er fallegt útsýni út Eyjafjörðinn. Það sést vel yfir Glerárkirkju en einnig niður á Glerártorg og alveg niður á höfn. Ég er á Akureyri. Hvar er ég?”. Við gerðum ráð fyrir að þurfa að gefa fleiri vísbendingar, en innan við fimm mínútum eftir að hún var gefin þá var fólk farið að streyma að. Tveir aðilar þurftu að taka sprett upp brekku til að keppast um hvor yrði fyrri til símans. Það var hann Jónas Jónsson sem stóð uppi sem sigurvegari og við óskum honum til hamingju sömuleiðis.

Jónas Jónsson

En þá erum við komin hinu megin á landið við Reykjavík, þaðan sem við byrjuðum. Hér fyrir austan munum við gera eitthvað gríðarlega skemmtilegt áður en við höldum suður á bóginn aftur. Næstu dagar munu svo sannarlega bera fleiri ævintýri í skauti sér!