Afþreying, Android

Hvernig á að sækja forrit í símann?

27/12/2011 • By

Nú er örugglega allt flæðandi í nýjum snjallsímum eftir jólahátíðina. Nú er bara að prófa sig áfram, sækja sér ný forrit og gleyma sér í þeirri snilld sem snjallsíminn er, en sumir gætu þurft hjálp hvað það varðar.

Það eru til nokkrar gerðir af snjallsímum, til einföldunar ætlum við að skipta þeim í fjóra flokka eftir stýrikerfi. Það eru Android farsímar, Nokia símar með Symbian, iPhone símar með iOS kerfið og Blackberry símar. Hvert og eitt stýrikerfi hefur sína eigin “forritabúð” (e. App store) og forrit eru hönnuð með hvert stýrikerfi í huga.

Android

 

Android stýrikerfið er á mjög mörgum tækjum, t.d. Samsung, LG og Sony Ericsson. Til þess að sækja sér forrit þarf að byrja á því að setja upp Gmail aðgang. Ef þú ert ekki með einn slíkan geturðu sótt hann frítt á Gmail.com. Þegar Gmail aðgangurinn er klár þarf að arka inn í Android Market, slá inn aðgangsorð og lykilorð og svo er bara að byrja að leita. Android Market er það stór að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þeir sem vilja leita að forritum í tölvunni geta farið á Market.Android.com og leitað þar. Ef þú skráir þig inn með sama Gmail aðgangi og er uppsettur í símanum þá smellirðu á “Install” hjá þeim forritum sem þú hefur áhuga á og þau hlaðast sjálfkrafa niður í símann.

Nokia

Symbian er algengasta stýrikerfið fyrir Nokia. Ef þú ert að spá hvort síminn þinn sé snjallsími eða ekki er ágætt að miða við hvort hann sé með snertiskjá. Auðvitað eru til snjallsímar sem eru ekki með snertiskjá, en þeir eru færri en hinir. Forritaverslunin fyrir Symbian stýrikerfið í Nokia heitir Ovi og þar er hægt að finna allt milli heims og geims. Að vísu er hún ekki alveg eins öflug og Android Market, en það er engu að síður hægt að finna skemmtilega leiki og handhæg forrit þar inni. Þú skráir þig með netfangi að eigin vali. Auðveldast er að gera það á Ovi.com í tölvunni, en einnig er hægt að gera það beint í símanum. Einnig er hægt að skoða úrval forrita á Ovi.com og fá þau send með SMS í símann.

iPhone


iPhone App Store er stærsta verslun með forrit í heiminum. Þar er hægt að finna bókstaflega allt. Eins og með Ovi þarf að skrá sig með netfangi sem þú velur. Það er einfalt að skrá sig í símanum sjálfum eða í iTunes. Þeir sem hafa einhverntíman átt iPod ættu að vera með iTunes í tölvunni sinni, annars er hægt að sækja það hér. Í iTunes er einnig hægt að leita að forritum ef manni finnst þægilegra að gera það í tölvunni. Hægt er að smella á forrit sem maður vill kaupa og færa yfir í símann með því að tengja hann við tölvuna.

BlackBerry


BlackBerry býður notendum sínum upp á BlackBerry App World. Skráning er með svipuðu móti og í Ovi og iPhone App Store, með netfangi sem þú velur. Annars er mælt með því að sama netfang og er upp sett í BlackBerry símanum sjálfum sé notað fyrir App World, þá þarf ekki að skrá sig sérstaklega. Eins og með hinar verslanirnar þá er hægt að skoða úrvalið á netinu á Appworld.BlackBerry.Com.

QR kóðar

Oftar en ekki bjóða fyrirtæki upp á leiðsögn í gegn um fyrstu skrefin í heimi snjallsíma. Einnig eru margir sem nota QR kóða til að koma forritum á framfæri og má sjá slíka kóða í markaðsefni frá N1 í sumar og frá Póstinum fyrir jólin þar sem þau voru að auglýsa forritin sín. Til þess að skanna þessa kóða þarf að vera með tilheyrandi forrit. Það er hægt að finna það í forritaverslunum fyrir viðkomandi síma, iPhone, Android, Nokia eða Blackberry. Einfaldasta leiðin er hins vegar að senda SMS með textanum “QR” í númerið 1900 og þá færðu sent forrit sem hentar fyrir þinn síma.

Prófaðu að skanna