Android

Android Market

20/05/2011 • By

Tæknirisinn Google hefur loksins séð aumur á okkur Íslendingum og ákveðið að leyfa okkur að taka fullum fetum þátt í upplýsingatæknibyltingunni.

Kannski full sterkt til orða tekið en engu að síður skemmtilegt að Google hafa nú opnað fyrir fullan og óheftan aðgang okkar að Android Market þar sem Android notendur geta náð í öll þau hundruðir þúsunda forrita sem hægt er að ná í fyrir Android síma. Fyrir var hægt að sjá og ná í ókeypis forrit en nú geta Íslendingar séð og keypt forrit sem kosta. Þar má finna fjölda af stórsniðugum og skemmtilegum forritum og það gæti ekki verið auðveldara að kaupa forrit á Android Market.

Kaupferlið er einfalt og fljótlegt en greiða þarf fyrir forrit með kreditkorti. Google taka ekki við reiðufé eða debetkortum.

Einn galli fylgir þó þessari breytingu á Android Market en hann er sem betur fer aðeins tímabundinn. Gallinn er sá að sum forrit sem áður voru sýnilegt á Android Market birtast ekki lengur en það mun lagast á næstu dögum eða vikum. Að minnsta kosti gott að hafa þetta í huga, það er ekkert að símanum ykkar eða þið farin að sjá ofsjónir,  þetta er raunverulegt vandamál en eins og áður segir lagast þetta fljótlega.