Netið

Netvarinn: Öryggi og aukin stjórn á ADSL tengingum

17/04/2008 • By

luckyoliver-5449955-blog-hacker.jpgÁ mánudaginn kynnti Síminn Netvarann – nýja lausn á ADSL markaði.

Lausninni hafa verið gerð nokkuð góð skil í fjölmiðlum síðustu daga, en þar sem þetta er  nokkuð viðkvæmt viðfangsefni er rétt að koma að nokkrum atriðum til að hnykkja á því hvað um er að ræða.

Tilgangur Netvarans er tvíþættur: Að auka öryggi tölvubúnaðar viðskiptavina og gefa þeim aukna stjórn á þeim nettengingum sem þeir eru að greiða fyrir.

Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að Síminn er ekki að setjast í eitthvað dómarasæti um það hvað viðskiptavinir okkar “megi” og “megi ekki” sjá.

Sjálfgefin stilling fyrir alla viðskiptavini er að hindra aðgang að:

  1. …skaðlegum síðum sem innihalda vírusa eða aðra “netóværu” – það sem upp á ensku er kallast “malware” og “spyware”
  2. …síðum sem hafið er yfir allan vafa að eru ólöglegar, s.s. síður sem innihalda barnaklám

Stjórnin er svo alfarið í höndum viðskiptavinarins sem stillir sínar óskir á þjónustuvef.Þannig getur viðskiptavinur t.d. lokað á aðgang að fjárhættuspilum eða vefjum með fullorðinsefni, MSN-spjall á ákveðnum tímum sólarhrings eða niðurhal á efni með skráarskiptaforritum. Öllum þessum stillingum er svo hægt að breyta að vild, bæði þeim sjálfgefnu og þeim sem notandinn hefur sjálfur sett.

Að öðru leiti er nettengingin alveg óbreytt frá því sem verið hefur.

Það er því ekki verið að taka neitt af notendum sem þeir höfðu áður, heldur þvert á móti gefa þeim aukna stjórn yfir því sem fram fer í gegnum nettengingar sem þeir greiða af og bera ábyrgð á.

Eða eins og markaðsdeildin myndi segja: Öruggara Internet – Það er Síminn.

P.S. Innleiðing Netvarans stendur nú yfir og nánari kynning mun fara fram áður en lausnin verður tekin í notkun.