Allt, GSM

iPhone í Evrópu … og á Íslandi

20/09/2007 • By

Á þriðjudaginn kynnti Apple loksins hvernig málum verður háttað með dreifingu á iPhone í Bretlandi. Þeir munu starfa þar með farsímafyrirtækinu O2. Síminn verður að auki til sölu í Carphone Warehouse keðjunni og svo auðvitað í Apple búðunum. Síminn kemur á markað þar í landi 9. nóvember.

Í gær (miðvikudaginn 19. sept) var svo tilkynnt að T-Mobile verði samstarfs- og dreifingaraðilinn í Þýskalandi og er dagsetningin þar sú sama.

Enn hefur ekki verið tilkynnt um fyrirkomulag dreifingar í öðrum Evrópulöndum, en fjölmiðlar telja fullvíst að dreifing í Frakklandi verði í höndum Orange. Apple hefur sagt að iPhone verði til sölu í fimm Evrópulöndum fyrir árslok og líklegt að hin löndin tvö verði Spánn og Ítalía, einfaldlega í ljósi fólksfjölda.

Ísland er væntanlega neðarlega á þessum lista og símans því varla að vænta í formlega sölu hér fyrr en um mitt næsta ár – þó ekkert hafi verið staðfest í þeim efnum. Hins vegar er fjöldi iPhone tækja í umferð hérlendis þegar farinn að telja í tugum og næsta víst að sprenging verður í því á næstu vikum. Þetta stafar bæði af tilkomu tiltölulega einfalds “hakks” sem aflæsir símunum þannig að hægt er að nota í þá hvaða SIM kort sem er og svo auðveldara aðgengi að honum fyrir Íslendinga þegar hann kemur í sölu í Evrópu.

Ef einhver fer út í þetta er rétt að minna á mikilvægi þess að velja sér réttar áskriftarleiðir fyrir  gagnaumferð (Síminn, Vodafone) til að halda kostnaði við notkunina í skefjum þar sem gagnanotkunin verður fljótt umtalsverð á þessum tækjum.