3G, Allt, Frelsi, GSM, Netið

3G!

17/08/2007 • By

Þriðju kynslóðar farsímakerfi Símans er komið í gagnið.

Starfsmenn fengu forsmekk á sæluna frá og með deginum í dag, en þjónustan mun standa viðskiptavinum Símans til boða á allra næstu dögum. Kerfið býður upp á margfaldan gagnaflutningshraða á við það sem hingað til hefur þekkst, sem opnar á algerlega nýja þjónustumöguleika.

Upplifunin á því að vafra um Vefinn í farsímanum er allt önnur og miklu betri; boðið er upp á farsímasjónvarp og hægt að hringja myndsímtöl.

Stóra byltingin felst samt ekki síst í því að nú er hægt að tengja fartölvur þráðlaust við Netið hvar og hvenær sem er með svokölluðum gagnakortum. Þannig þarf t.d. ekki að vera í vafa um að komast á Netið á mikilvægum fundi úti í bæ, auðvelt fyrir verktaka að tengjast á byggingarsvæðinu eða sendibílstjórann í bílnum sínum og jafnvel hægt að taka fartölvuna með á völlinn svona til að fylgjast með stöðunni í hinum leikjunum.

Fræðilega býður kerfið sem Síminn hefur sett var upp allt að 7,2 Mbit/s hraða, en sá hraði deilist reyndar niður á alla þá sem eru í sama sendireit, auk þess sem umhverfisþættir, s.s. fjarlægð frá sendi, byggingar, gróður, hólar og hæðir geta haft áhrif. Þannig er raunhæft að segja að hver notandi geti fengið um 2 Mbit/s hraða – ekki ósvipað algengum heimatengingum fyrir 2-3 árum síðan. Í framtíðinni verður svo hægt að auka afkastagetu kerfisins enn frekar.

Svæðið sem þjónustan nær til í fyrstu er höfuðborgarsvæðið allt og Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Frekari uppbygging stendur fyrir dyrum á öðrum helstu þéttbýlisstöðum, en þau plön verða nánar kynnt síðar.

Starfsmenn Símans hafa unnið þrekvirki í sumar. Sem dæmi hafa verið settir upp um 100 3G sendar og þá er ótalin vinna sem liggur í kerfisbúnaði, þróun lausna, samningum við birgja og efnisframleiðendur og svo mætti lengi telja. Það verður gaman að sjá viðtökurnar eftir helgi, þegar þessi fyrsta “bylgja” af 3G lausnum kemur á almennan markað, en svo er að sjálfsögðu meira í pípunum.

Ég læt þessu lokið með mynd sem tekin var í dag af Sjónvarpinu í Símanum keyrandi á Sony Ericsson W880i símanum mínum og tengt við hátalara – eða “heimabíókerfi fyrir álfa” eins og einn samstarfsmaður minn komst svo skemmtilega að orði 😉

Heimabíó fyrir álfa

Uppfært 17. ág, 2007: Breytti upplýsingum um tímasetningu. 3G mun standa almennum viðskiptavinum til boða á allra næstu dögum. Nánar um það síðar.